Í kvöld, þriðjudaginn 30. nóvember verður jólafundur hjá Aðaldeild (AD) KFUK, á Holtavegi 28 í Reykjavík kl.20.
Fundurinn í kvöld hefur yfirskriftina ,,Gleði ríkja skal í bænum“, en umsjón með honum hefur Margrét Möller. Fjallað verður um þá gleði sem fylgir aðventunni sem nú er nýhafin, og þrjár konur segja frá undirbúningi jóla þegar þær voru ungar (í Reykjavík, á Akranesi og í Ólafsvík). Lesin verður yndisleg jólasaga og fallegir aðventusöngvar sungnir.
Tilvalið er að verja kvöldinu í góðum félagsskap, njóta jólastemmningar og gleðjast yfir komu jólanna við kertaljós á fundinum.
Eftir að fundi lýkur verður súkkulaði með rjóma og smákökur á boðstólnum, og eru gestir hvattir til að staldra við og eiga saman góða stund. Einnig verður í boði að festa kaup á góðum varningi frá Basar KFUK síðan um síðastliðna helgi.
Allar konur á öllum aldri eru hjartanlega velkomnar.
Fundir Aðaldeildar (AD) KFUK eru hluti af fullorðinsstarfi KFUM og KFUK á Íslandi og eru öll þriðjudagskvöld í vetur í félagshúsi KFUM og KFUK að Holtavegi 28 í Reykjavík kl.20. Allar konur eru velkomnar á fundina. Nánari upplýsingar um AD-starf er að finna hér: www.kfum.is/ad-og-fjolskyldustarf/ .