Næstkomandi laugardag, 27.nóvember kl.14-17 verður hinn árlegi Basar KFUK haldinn í félagshúsi KFUM og KFUK á Holtavegi 28 í Reykjavík.
KFUK – konur eru nú önnum kafnar við undirbúning basarsins, ásamt dyggu aðstoðarfólki, bæði við gerð fallegra muna á borð við dúka, teppi, jólaskraut, og einnig við bakstur, sultugerð og ýmislegt fleira.
Undirbúningur gengur vel og mikil stemmning er fyrir basardeginum sjálfum, en á honum verða nýbakaðar vöfflur til sölu ásamt heitu kakói og kaffi.
Hægt verður að festa kaup á mörgu eigulegu og fögru á basarnum, sem er til dæmis tilvalið í jólagjafir, og einnig ljúffengar heimabakaðar kökur ásamt ýmsu öðru góðgæti.
Allur ágóði af basarnum er til styrktar starfsemi KFUM og KFUK á Íslandi.
KFUK-konur hvetja alla til að styðja við framtakið og leggja sitt af mörkum til basarsins, til dæmis með því að baka smákökur eða tertur til að selja á basarnum. Einnig er hægt að gefa til basarsins nýja eða notaða smáhluti og fylgihluti.
Í Þjónustumiðstöð KFUM og KFUK að Holtavegi 28 í Reykjavík (frá kl.9 til 17 virka daga) er nú hægt að fá bæði plast – og málmbox (ílát) sem eru afar hentug til að setja til dæmis nýbakaðar smákökur eða annað góðmeti í, til að selja á basarnum.
Tekið er við gjöfum á basarinn í húsi KFUM og KFUK á Holtavegi 28 í vikunni fyrir basarinn. Föstudaginn 26. nóvember verður móttaka í húsinu til kl. 21.
Allir eru hjartanlega velkomnir á basarinn, sem er kjörið tækifæri til að styðja við starfsemi félagsins og um leið festa kaup einhverju fallegu rétt áður en aðventan gengur í garð.
Nánari upplýsingar um basarinn eru hér: http://www.kfum.is/ad-og-fjolskyldustarf/basar-kfuk/ .