Hinn árlegi og stórglæsilegi Basar KFUK verður haldinn í félagshúsi KFUM og KFUK á Holtavegi 28 laugardaginn 27.nóvember kl.14. Þetta er í 101.sinn sem Basarinn, sem á sér merka sögu, er haldinn. Hann er mikilvæg fjáröflun fyrir starfsemi KFUM og KFUK, en allur ágóði af honum rennur til starfs félagsins.
Basarinn er orðinn vel þekktur fyrir fallegt og vandað handverk sem KFUK-konur hafa unnið af kostgæfni, og ýmislegt ljúffengt góðgæti sem þær hafa bakað af kunnri færni, til dæmis kökur, jólasmákökur og bollur. Handgerðir hlutir, jólaskraut, dúkar, leikföng og fatnaður verða á boðstólnum. Á basarnum verða einnig til sölu notaðir en vel með farnir smáhlutir og fylgihlutir (slæður, hanskar, töskur skartgripir o.fl.).
Á basardeginum verður hægt að kaupa nýbakaðar ilmandi vöfflur, kaffi og kakó.
KFUK-konur hvetja alla til að styðja við framtakið og láta gott af sér leiða með því að gera eitthvað sem hægt er að selja á Basarnum: kökur af öllum gerðum og stærðum, sultur eða annað matarkyns. Einnig er hægt að styðja við basarinn með því að gefa til hans nýja eða notaða (og vel með farna) smáhluti og fylgihluti.

Tekið er við gjöfum á basarinn í húsi KFUM og KFUK á Holtavegi 28 í vikunni áður en basarinn er haldinn (22.-26.nóv.). Föstudaginn 26. nóvember verður móttaka í húsinu til kl. 21.
Nánari upplýsingar um Basar KFUK má sjá á eftirfarandi netslóð: http://www.kfum.is/ad-og-fjolskyldustarf/basar-kfuk/ og þeim sem hafa áhuga á að kynna sér sögu Basarsins er bent á texta á eftirfarandi slóð: http://www.kfum.is/forsida/kfum-og-kfuk/soguagrip/basar-kfuk/ .

Allir eru hjartanlega velkomnir á Basar KFUK, sem er kjörið tækifæri til að styðja við starfsemi félagsins, en um leið festa kaup á fallegu handverki og gómsætu góðgæti, rétt áður en aðventan gengur í garð.