Í dag, sunnudaginn 14. nóvember hefst Alþjóðleg bænavika Heimssambanda KFUM og KFUK. Heimssambönd KFUM og KFUK hafa gefið út hefti með hugvekjum fyrir hvern dag þessarar viku. Í ár eru einkunnarorð bænavikunnar ,,Konur byggja öruggan heim“ („Women Creating a Safe World“). Þessi orð eru eins konar rauður þráður í markmiðum bænavikunnar í ár, og fela í sér áherslu sem er lögð á að meta að verðleikum þau leiðtoga- og frumkvöðlahlutverk sem konur skipa sér gjarnan í í daglegu lífi.
KFUM og KFUK á Íslandi halda upp á Alþjóðlegu bænavikuna með bænastund og hádegishressingu bæði í Reykjavík (að Holtavegi 28) og á Akureyri (í Sunnuhlíð) miðvikudaginn 17. nóvember kl.12. Allir eru hjartanlega velkomnir.
Hér fyrir neðan er hugleiðing vikunnar úr hefti sem Heimssambönd KFUM og KFUK gefa út í tilefni bænavikunnar, þýdd á íslensku:
Blessaðir séu þeir sem taka áhættu, því þeim verður boðið öryggi
Óttast þú eigi, því ég hef frelsað þig; ég hef kallað á þig með mínu nafni, þú ert minn. (Jesaja 43:1).
En skyndilega kom engill, snerti hann (Elía) og sagði: „Rís upp og matast.“ Hann litaðist um og sá þá glóðarbakað brauð og vatnskrukku við höfðalag sitt. Hann át og drakk og lagðist síðan fyrir aftur. (Fyrri konungabók 19.5b-6).
Hvernig getum við reist öruggari heim? Hvaðan gætum við fengið styrk til að öðlast drauma um að það sé á annað borð mögulegt?
Þetta fallega vers úr Jesaja-bók minnir okkur á að Guð kallar á hvert og eitt okkar með nafni. Sú köllun er full af nánd og vitneskju, og felur í sér endurlausn og örugga framtíð. Guð hefur gefið hverju okkar nafn, og því erum við dýrmæt og elskuð. Þegar við erum ákölluð af Guði, getur hvert og eitt okkar svarað þeirri köllun sem felur í sér að breyta í grundvallaratriðum þeim heimi sem við lifum í. Í þessum heimi hafa mjög margar konur og stúlkur orðið fyrir ofbeldi, mismunun og útskúfun, bæði í einkalífi og í samfélagslegum skilningi.
Spámaðurinn Elía hafði lagst fyrir í örvæntingu og þungu skapi, og óskað þess að deyja. Mörg okkar upplifa slík augnablik í lífi okkar, en hvernig getum við fundið hvöt til þess að vakna upp af svefni okkar og halda af stað fram á veginn sem bíður okkar? Engill snerti og vakti Elía, bæði upp af svefni hans og þungum þönkum, og bauð honum næringu í einföldustu mynd: volgt brauð og ferskt vatn. En í svefni sínum fékk spámaðurinnn hina raunverulega næringu. Ef til byrjaði hann nú að dreyma gegnum undirmeðvitund sína, um að möguleiki á framtíð væri fyrir hendi.
Brauð og vatn eru eins konar táknmyndir fyrir matarskammta sem gefnir eru í fangelsum. Brauð og vatn eru rétt naumlega lágmarksfæða fyrir mannfólk til að halda lífi, og gefa okkur áminningu um það ofbeldi sem fátækt og hungursneyð hafa í för með sér. Á hve mörgum stöðum í heiminum ætli konur hafi eingöngu aðgang að matarafgöngum sem karlmenn leyfa?
Guð talar til hvers og eins okkar og segir: ,,Ég hef kallað á þig með nafni þínu..“
Um leið og við leitumst við að reisa öruggari heim, þurfum við að finna fyrir návist engilsins sem vekur okkur upp af svefni okkar, og kallar okkur til bæði andlegrar og líkamlegrar vellíðunar, og gerir okkur kleift að takast á við heiminn að nýju. Til að gæða heiminn meira öryggi þarf að taka þarfir þeirra fátækustu alvarlega. Allir þurfa að hafa aðgang að drykkjarvatni, og deila þarf mat á réttlátan hátt á milli fólks.
Þegar við leitumst við að skapa öruggan heim, verðum við að gera greinarmun á mismunandi gerðum öryggis. Þær háu öryggisgirðingar – og veggir sem eru algeng dæmi um eitthvað sem á að veita öryggi okkar tímum, bera vott um ótta. Til þess að umbreyta heimi okkar og til þess að gera hann að öruggari stað fyrir okkar allra minnstu systkini, ákallar Guð okkur til þess að láta engil sinn vekja okkur upp af svefni. Örvæntum ekki, því Guð veitir okkur stuðning og kjark til þess að gæða heiminn auknu öryggi.

Spurningar til að hugleiða, bæði einstaklingsbundið og í hóp:

– Ert þú sofandi? Er eitthvað eða einhver sofandi í því samfélagi sem þú ert hluti af? Frá hverju þarft þú að vakna? Frá hverju þurfum við að vakna? ( Sjálfsánægju, övæntingu, aðgerðaleysi eða lélegri sjálfsmynd..?)
– Englar eru sendiboðar. Stundum koma sendiboðar til okkar og stundum erum við sjálf sendiboðarnir. Í hverju felast þau skilaboð sem við veitum og hugga og vekja til umhugsunar þá sem við vekjum í dag? Í hverju felast skilaboðin sem hafa huggað og vakið okkur sjálf til umhugsunar?
– Á hvaða hátt getum við sýnt í starfi okkar að við höfum verið ákölluð með nafni til að byggja heim gæddan öryggi, bæði sem einstaklingar og sem samfélag?

Bæn:
Guð, þú ákallar okkur eitt og sérhvert með nafni,
Þú lyftir okkur upp úr örvæntingu okkar og býður okkur brauð lífsins,
Þú kallar okkur til þjónustu við þig að byggja heim sem getur sigrast á ofbeldi;
Gef okkur þann kraft og það hugrekki sem við þörfnumst til að hlýða kalli þínu, og feta veg Jesú Krists. Við biðjum í Jesú nafni,
Amen.