Námskeiðið „Verndum þau“ haldið 23.nóvember næstkomandi í Lindakirkju

  • Föstudagur 12. nóvember 2010
  • /
  • Fréttir

Námskeiðið „Verndum þau“ sem er á vegum Æskulýðsvettvangsins (BÍS, UMFÍ og KFUM og KFUK á Íslandi)verður haldið þriðjudaginn 23.nóvember næstkomandi kl.17-20 í Lindakirkju í Kópavogi. Ólöf Ásta Farestveit, uppeldis- og afbrotafræðingur, leiðir námskeiðið.
,,Verndum þau“-námskeiðið fjallar um alla þætti barnaverndarmála, til dæmis vanrækslu og ofbeldi gegn börnum, auk þess sem gerð er grein fyrir ferli mála af þessu tagi hjá barnaverndaryfirvöldum og innan dómskerfisins. Námskeiðið hefur verið haldið nokkrum sinnum áður síðastliðin ár við góðan orðstír.
Námskeiðið er mikilvægt fyrir þau sem starfa með börnum og unglingum á vettvangi tómstunda- og æskulýðsstarfs. Það hjálpar starfsfólki að vera meðvitað um skyldur sínar og ábyrgð í starfi, að geta lesið í vísbendingar um hvort um vanrækslu eða ofbeldi sé að ræða gegn börnum heima fyrir, í skóla eða annars staðar og að vita hvernig bregðast á við ef slík mál skjóta upp kollinum. Allir leiðtogar og starfsmenn KFUM og KFUK sem starfa með börnum og unglingum og hafa ekki farið á umrætt námskeið, eru tvímælalaust hvattir til þess að láta þetta tækifæri til þess ekki fram hjá sér fara.
Námskeiðið er opið öllum. Skráning fer fram hjá Þjónustumiðstöð KFUM og KFUK í síma 588-8899 alla virka daga fram að námskeiðinu (opnunartími er frá kl.9 til 17).