Hið árlega Léttkvöld Skógarmanna KFUM verður haldið að Holtavegi 28 í Reykjavík, fimmtudagskvöldið 18.nóvember næstkomandi kl.19. Það er mikilvægur liður í fjáröflun til styrktar nýbyggingu í Vatnaskógi, og ávísun að góðri kvöldstund. Kvöldið er hluti af starfi Aðaldeildar (AD) KFUM og allir karlar eru hjartanlega velkomnir.
Léttkvöldið verður með skemmtilegu og spennandi sniði að venju. Glæsilegur fjáröflunarkvöldverður verður reiddur fram, og boðið verður upp á fjölbreytta skemmtidagskrá. Skógarmenn KFUM hafa umsjón með kvöldinu, en allur ágóði fjáröflunarinnar rennur í Skálasjóð Vatnaskógar.
Dagskrá kvöldsins inniheldur meðal annars uppboð á gæðaljósmyndum úr Vatnaskógi sem Sigurður Pétursson stýrir. Ársæll Aðalbergsson og Ólafur Sverrisson verða með upphafsorð og kynningu á nýbyggingunni í Vatnaskógi, og Stefán Einar Stefánsson hefur hugleiðingu. Stjórnandi kvöldsins er Kjartan Vídó Ólafsson, en Hreiðar Örn Zoega Stefánsson er yfirkokkur. Verð er kr. 4500.
Matseðill kvöldsins:
Undanfari: Sjávardúett á fleti kornbóndans við Eyrarvatn
Forréttur: Sjávarréttasúpa bátaforingjans
Milliréttur: Munnfylli trésmiðsins: Heit jólakæfa í brauði
Aðalréttur: Purusteik að hætti kjötiðnaðarmeistarans (Nýtt svínakjöt m/puru)
Eftirréttur: Eftirlæti flísalagningamannsins: Marengshreiður á flísum með ferskum ávöxtum og rjóma
Allir Skógarmenn eru hvattir til að mæta og eiga góða kvöldstund og styðja við nýbyggingu í Vatnaskógi. Hægt að skrá sig á Léttkvöldið í Þjónustumiðstöð KFUM og KFUK í síma 588-8899 og á http://skraning.kfum.is/ . Einnig er hægt að ganga frá skráningu með því að senda póst á: skrifstofa@kfum.is .
Athugið: Léttkvöldið hefst kl.19 en ekki kl.20 eins og vani er með AD KFUM-fundi sem eru haldnir á vegum KFUM og KFUK á Íslandi öll fimmtudagskvöld yfir vetrartímann.