Lokaskiladagur verkefnisins Jól í skókassa var á laugardaginn síðasta, 6.nóvember 2010.
Eftir viðburðaríkan mótttökudag í félagshúsi KFUM og KFUK að Holtavegi 28 í Reykjavík, settu félagar í Biblíuleshópnum Bleikjunni og aðstoðarfólk 3.639 skókassa sem bárust til verkefnisins í flutningagám sem fer til Úkraínu. Þessi fjöldi skókassa er til marks um aukningu á fjölda skókassa sem bárust til verkefnisins fyrir ári síðan.
Gjöfunum verður meðal annars dreift á heimili fyrir munaðarlausa, barnaspítala og til barna einstæðra foreldra í Úkraínu, í byrjun janúar þegar jólin eru haldin hátíðleg þar í landi. Gámurinn fer í skip frá Eimskipafélagi Íslands áleiðis til meginlands Evrópu síðar í vikunni.
Hér til hliðar má sjá mynd af ungum dreng sem kom færandi hendi á laugardaginn með bros á vör og gaf gjöf í skókassa með gleði.
Við þökkum kærlega þeim hundruðum einstaklinga sem komu í félagshús KFUM og KFUK á laugardaginn og á síðustu dögum og vikum með góða gjöf sem gleður, og þeim þúsundum sem tóku þátt í verkefninu.
Fræðast má um verkefnið Jól í skókassa á heimasíðunni www.skokassar.net , en þetta er í sjöunda skiptið sem það er framkvæmt hér á landi. Þar er einnig hægt að skoða myndir frá afhendingu skókassa í Úkraínu fyrir ári síðan.