Nú eru aðeins 5 dagar í lokaskiladag verkefnisins Jól í skókassa í Reykjavík, sem er laugardagurinn 6.nóvember. Söfnun á skókössum er nú í fullum gangi og nær hámarki í þessari viku.
Í dag, 1.nóvember, hafa fjölmargir fallegir skókassar í skemmtilegum jólaumbúðum, fullir af góðum gjöfum borist í Þjónustumiðstöð KFUM og KFUK að Holtavegi 28. Meðal annarra komu tvær konur færandi hendi snemma morguns, og afhentu 40 glæsilega skókassa til verkefnisins, sem þær höfðu útbúið og skreytt sjálfar.
Lokaskiladagur verkefnisins á höfuðborgarsvæðinu er laugardagurinn 6. nóvember, í félagshúsi KFUM og KFUK að Holtavegi 28 í Reykjavík frá kl. 11:00 til kl. 16:00. Þá verða léttar veitingar í boði, auk þess sem boðið verður upp á myndasýningu frá afhendingu skókassa frá síðustu jólum í Úkraínu. Þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu geta komið með skókassa í Þjónustumiðstöð KFUM og KFUK að Holtavegi 28 (104 Reykjavík, gegnt Langholtsskóla) alla virka daga í þessari viku, þar sem opnunartími er frá kl.9 til 17.
Fyrir þá sem búa úti á landi og vilja taka þátt í verkefninu, er hægt að skila kössum til næsta útibús hjá Flytjanda sem sér um flutning á þeim til Reykjavíkur í félagshús KFUM og KFUK við Holtaveg 28.
Allar nánari upplýsingar um verkefnið, leiðbeiningar um það hvernig skal ganga frá skókössunum, listi yfir þá hluti sem mega og mega ekki fara í kassana, er að finna á heimasíðu Jóla í skókassa: www.skokassar.net . Verkefnið hefur einnig síðu á Facebook. Velkomið er að hafa samband við Þjónustumiðstöð KFUM og KFUK í síma 588-8899 ef fyrirspurnir vakna.
Jól í skókassa er alþjóðlegt verkefni sem felst í því að fá börn jafnt sem fullorðna til þess að gleðja börn sem lifa við fátækt, sjúkdóma og erfiðleika með því að gefa þeim jólagjafir. Skókössunum sem safnast í ár verður meðal annars dreift á heimili fyrir munaðarlausa, barnaspítala og til barna einstæðra foreldra, en þeir verða sendir til Úkraínu í janúar.