Á Sæludögum í Vatnaskógi um verslunarmannahelgina á nýliðnu sumri hófst Línuhappdrætti Skógarmanna, sem er starfrækt til styrktar byggingu á nýjum svefn- og þjónustuskála í Vatnaskógi. Allur ágóði af happdrættinu rennur til þess málefnis. Þátttaka í happdrættinu var mjög góð, en alls seldust 286 línur.
Á Heilsudögum karla í Vatnaskógi í september síðastliðnum var dregið í happdrættinu. Margir glæsilegir vinningar voru veittir, til dæmis Heilsupakkar frá Lýsi, Vatnaskógarbolir frá Puma, sími frá Hátækni, kort í Sundlaugar Reykjavíkur, Eilíft líf – Úrval ljóða eftir Sigurbjörn Þorkelsson, bókin Nótt eftir E. Wiesel, og gjafabréf í Vatnaskóg.
Aðalvinningur í Línuhappdrættinu var glæsileg Eva Royal – saumavél frá saumavelar.is. Ungur vinningshafi, Dagur Möller, hlaut saumavélina í happdrættinu, en hann kom ásamt móður sinni og bróður að vitja vinnings síns í Þjónustumiðstöð KFUM og KFUK að Holtavegi 28 í Reykjavík, á dögunum.
Á meðfylgjandi mynd má sjá vinningshafann ásamt móður sinni og bróður, og aðalvinninginn.
Annarra vinninga í happdrættinu má vitja í Þjónustumiðstöð KFUM og KFUK að Holtavegi 28 í Reykjavík. Opnunartími er frá kl. 9 til 17 alla virka daga, og símanúmerið er 588-8899.
Skógarmenn KFUM þakka öllum þeim sem studdu við nýbygginguna í Vatnaskógi með þessum hætti, og óska Degi Möller innilega til hamingju með nýju saumavélina.