Haustnámskeiðið leiðtoga í æskulýðsstarfi KFUM og KFUK verður haldið í kvöld, miðvikudagskvöldið 22. september, kl. 18.00 – 20.30 í húsi KFUM og KFUK við Holtaveg 28 í Reykjavík.
Námskeiðið er fyrir alla leiðtoga og aðstoðarleiðtoga í deildarstarfi KFUM og KFUK og er í samstarfi við kirkjuna.
Markmið námskeiðsins er einfalt og skemmtilegt: Við ætlum að rifja upp gömul lög og læra ný til þess að nota í starfinu en söngur er mikilvægur þáttur í æskulýðsstarfinu og viljum við efla hann sem mest. Notast verður við æskulýðssöngbókina „Guð, í þinni hendi“ í henni er að finna 130 söngva sem sungnir hafa verið í kristilegu æskulýðsstarfi á Íslandi.
Umsjón með söngnum hafa Gunnar Einar Steingrímsson og Guðmundur Karl Einarsson sem eru miklir söngmenn og voru í ritstjórn bókarinnar „Guð, í þinni hendi“.
Þeir sem vilja taka með sér gítara eða önnur hljóðfæri sem þeir nota í starfinu eru hvattir til að hafa þau með. Við hin tökum með okkur góða skapið og röddina fögru sem Guð hefur gefið okkur öllum.
Allir eru velkomnir á námskeiðið en námskeiðsgaldið er 1.500 kr. á mann og er matur innifalinn. Leiðtogar hjá KFUM og KFUK greiða ekki námskeiðsgjald.
Skráning fer fram hjá Jóni Ómari Gunnarssyni, æskulýðspresti KFUM OG KFUK, á netfanginu jonomar@kfum.is .
Ef frekari fyrirspurnir um námskeiðið vakna, er velkomið að hafa samband við Þjónustumiðstöð KFUM og KFUK í síma 588-8899.