Það er óhætt að segja að mikil gleði ríki hér meðal drengjanna í Vatnaskógi, veðrið er hlýtt og bjart en nokkur ský á lofti.
Eftir kvöldvöku í gær, var boðið uppá kapellustund fyrir þá sem vildu og eftir tannburstun komu drengirnir saman í nýjasta sal birkiskála þar sem boðið var uppá sögustund, brandara og gamansögur í bland við dýpri sögur með trúar og siðfræðiboðskap. Lítið mál var að svæfa drengina að því loknu enda viðburðarríkur dagur að baki.
Kl. 8:30 byrjaði dagurinn og morgunmatur hófst kl. 9:00 en þar var boðið uppá heitt kakó og smurt brauð með fjölbreyttum áleggstegundum. Fánahylling og fræðslustund fylgdu í kjölfarið og var fjallað um drengina sem mikilvæga sköpun Guðs sem hefur gefið lífið og bara búið til eitt eintak af okkur hverju og einu hér á jörð. Síðan var skipt í hópa og drengjunum kennt að flétta upp í Biblíunni og finna kafla og vers.
Því næst hófst fótboltamótið við mikla gleði auk þess sem keppni í borðtennis fór fram ásamt bátum og fjölbreyttu úrvali íþróttahússins.
Í hádegismatin var steiktur fiskur með hrísgrjónum og fersku salati og ísköldu vatni. Drengirnir gerðu því góð skil.
Nú stendur yfir gönguferð um svæðið, bátar og vatnafjör ásamt ýmsum leiktækjum. Stemmningin er góð og drengirnir ánægðir og margir búnir að kynnast nýjum vinum.
Búið er að smella af á annað hundrað ljósmyndum til að reyna fanga stemmninguna en því miður er enn glímt við tæknibilum sem hamlar því að hægt sé að setja inn myndir.

kveðjur
Guðni Már Harðarson, forstöðumaður!