Í dag var óþarfi að vekja stúlkurnar því þær voru allar vaknaðar um 8 leitið, sumar af spenningi en aðrar vegna þess hvað hinar voru spenntar. Fyrir morgunmat voru morgunæfingar í lautinni og fánahylling með frumlegum fánadansi Þóru foringja. Eftir morgunmat var biblíulestur og síðan var farið í fyrstu brennókeppnina þar sem stúlkurnar sýndu snilldartakta, því næst var frjáls tími fram að hádegismat en þar var boðið upp á dýrindis kjötbollur með kartöflumús. Eftir hádegismatin var haldið að hliðinu þar sem keppt var í víðavangshlaupi, því næst fórum við í limbó, stígvélaðikast, broslengdarmælingu, 3 stöðva hlaup og kraftakeppni. Eftir allan hamaganginn var þreyttum og duglegum stelpum boðið uppá kökur og djús í kaffinu. Eftir kaffið var keppt í köngulóarhlaupi og því næst farið í heita pottinn til að jafna sig eftir alla áreynsluna. Þá fengu stelpurnar í Lindarveri tíma til að undirbúa atriði fyrir kvöldvökuna. Eftir að hafa fengið ljúffenga kakósúpu í kvöldmatinn var frjáls tími fram að kvöldvökunni sem var undir stjórn Þóru foringja, við sungum, hlustuðum á hugleiðingu Hafdísar foringja og horfðum á leikrit Lindarvers. Því næst var kvöldkaffi og undirbúningur fyrir svefninn. Stelpurnar virðast vera búnar að koma sér vel fyrir og allt gengur í sómanum.