Síðastliðinn laugardag fóru átta ungir leiðtogar úr starfi KFUM og KFUK í ferð til Þýskalands á fjölþjóðlegt leiðtoganámskeið sem stendur yfir í eina viku. Mótsstaðurinn er í klukkustundar fjarlægð frá Frankfurt í sumarbúðum KFUM og KFUK sem heita Camp Michelstadt. Með í för eru tveir fararstjórar, þau Jóhann Þorsteinsson, sviðsstjóri æskulýðssviðs og Sólveig Reynisdóttir kennari og leiðtogi í starfi félagsins. Ferðin hefur fram til þessa algjörlega staðið undir væntingum hópsins en hér eru þátttakendur frá Þýskalandi, Hollandi, Spáni, Rússlandi, Írlandi, Tékklandi og Íslandi.
Hver dagur hefst á því að boðið er upp á morgunskokk eða sund fyrir þá sem vilja og eftir morgunverð er fræðslusamvera í samkomutjaldinu þar sem mikil áhersla er lögð á virkni og samvinnu hópsins. Um kl. 11.30 eru ýmsir valhópar í boði þar sem hægt er að kynna sér ýmsar hugmyndir sem nýtast í starfi KFUM og KFUK. Eftir hádegi er frjáls tími þar sem þátttakendur spila blak, fara í sund, spjalla saman eða skreppa í bæinn. Síðdegis eru svo aftur valhópar þar sem áhersla er lögð á að leiðtogarnir sjálfir kynni eigin hugmyndir eða segi frá reynslu sinni úr starfinu og höfum við meðal annars haldið skemmtilega kynningu á sumarbúðastarfi KFUM og KFUK á Íslandi.
Á kvöldin er svo dagskrá í samkomutjaldinu og í gærkvöldi var alþjóðaþema undir yfirskriftinni "United colours of Europe" og var hver hópur með skemmtiatriði sem var einkennandi fyrir þeirra menningu og þjóð.
Dagurinn í dag er helgaður íþróttum og leikjum til notkunar í starfinu. Allir úr hópnum biðja fyrir góðar kveðjur heim og vonandi getum við sett inn myndir síðar í vikunni.