Morgunninn var hefðbundinn, morgunmatur, fánahylling og biblíulestur. Á biblíulestrinum ræddum við um frið og þá sérstaklega friðinn sem við getum fengið frá Guði. Í kjölfarið af biblíulestrinum drógu stelpurnar sér leynivin en sá leikur verður í gangi þangað til í hádeginu á veisludag. Við höfum átt í örlitlum vandræðum með vatnið og því hafa stelpurnar ekki getað farið jafnoft í sturtu og þær hefðu viljað. Eftir hádegismatinn var því plönuð ferð í sund á Hlöðum.

Við vorum svo heppnar að það var verið að halda upp á 30 ára afmæli laugarinnar og því fengum við ókeypis í sund, grillaðar pylsur, afmælistertu, gos og svo var meðal annars Björgvin Frans úr Stundinni okkar að skemmta! J Eftir vel heppnaða sundferð ákváðum við að kíkja í heimsókn á unglingaflokk í Vatnaskógi en það vakti mikla lukku stelpnanna. Þær sem vildu fengu að fara út á bát en hinar röltu um skóginn og kynntust krökkunum.

Við vorum komin aftur upp í Ölver um hálfsex leytið og þá fóru þær allar í að útbúa atriði fyrir kvöldvökuna en þema kvöldsins var „skinka“. Við fengum skyr og brauð í kvöldmatinn. Á kvöldvökunni skemmtu öll herbergin, hvert í sínu lagi og sungu svo öll saman „skinkulagið“ fyrir okkur starfsfólkið. Hugleiðingin var um bænina og þær fylgdust að vanda mjög vel með. Eftir kvöldvökuna fengu þær ávexti og fóru svo inn í rúm og bænakonurnar fóru inn á herbergin.

En kvöldið var ekki alveg búið. Við vorum búnar að ákveða að hafa næturleik og fengum þrjá starfsmenn úr Vatnaskógi til að koma og hjálpa okkur. Leikurinn tókst vel og að honum loknum fengu stelpurnar heitt kakó og bakkelsi áður en þær fóru inn rúm. Það tók smá tíma að ná þeim niður aftur og í ró en foringjarnir sátu á ganginum og sungu fyrir þær.

Takk fyrir okkur.
Þóra Jenny, forstöðukona.