Tæknin er eitthvað að stríða okkur og við getum því miður ekki sett inn myndir en það er verið að vinna í að laga þetta vandamál og myndirnar koma inn um leið og þessu hefur verið kippt í lag.
Stelpurnar voru vaktar klukkan níu eins og venjulega og borðuðu morgunmat og fóru í fánahyllingu. Eftir tiltekt á herbergjum var biblíulestur en að honum loknum hófst hin svokallaða Survivor-Ölver. Það voru þrjú lið í keppninni, skipt eftir herbergjum og fyrsta verkefni þeirra var að búa til búninga og nafn á hópinn og hanna plakat. Þegar því var lokið var komið að hádegismat en að þessu sinni fengum við dýrindis mexíkóska kjúklingasúpu og brauð.
Eftir hádegismatinn fengu hóparnir það verkefni að búa sér til skýli og höfðu þær um hálftíma til þess. Foringjarnir gengu á milli og skoðuðu skýli stelpnanna. Eftir að hafa skoðað öll skýlin fóru þær inn í íþróttahús þar sem tvær úr hverju liði tóku þátt í nokkurs konar froskahopps-boðhlaupi. Í næstu þraut tóku þrjár úr hverju liði þátt og þær áttu að standa á öðrum fæti eins lengi og þær gátu. Síðasta þrautin í þessu holli var boðhlaup yfir og undir hengirúmið, á tíma. Þrjár úr hverju liði tóku þátt í því og eitt lið hljóp í einu. Að þessu loknu var komið kaffitíma.
Seinnipartinn fengu liðin það verkefni að semja texta við lag að eigin vali um Ölver. Allavega einn hópurinn samdi dans við lagið sitt líka en þetta verður frumflutt á kvöldvökunni á eftir. Hlíðarver og Lindarver undirbjuggu skemmtiatriði fyrir kvöldvöku og þær sem vildu fóru í pottinn. Margar sátu inni í matsal og spiluðu en aðrar æfðu söngatriðið sitt eða tóku því rólega inni á herbergjum. Klukkan 19 var kvöldmatur en að þessu sinni fengu þær heimabökuð pítubrauð með hakki og grænmeti.
Nú er komið að kvöldvöku þar sem Hlíðarver og Lindarver sjá um skemmtiatriðin og að þeim loknum heyrum við textana sem þær bjuggu til í dag. Eftir kvöldvökuna bjóða ráðskona og bakari stelpunum á Cafe Ölver en þær hafa verið að undirbúa það í allan dag. Að því loknu fara bænakonurnar inn á herbergin og stepurnar verða vonandi jafnduglegar og þær hafa verið, að fara að sofa.
Kær kveðja,
Þóra Jenny, forstöðukona