Fyrsti dagurinn í unglingaflokk er nú að kveldi kominn. Stelpurnar hafa átt mjög góðan dag. Þær voru komnar hingað uppeftir á hádegi og þá röðuðu foringjarnir þeim niður í herbergi. Það gekk mjög vel. Þær komu sér fyrir og fengu svo ávaxtasúrmjólk í hádegismatinn. Eftir mat fóru þær í gönguferð niður á skeiðvöllinn og fóru í nokkra leiki. Þá var kaffitími og brennóæfing að honum loknum. Stelpurnar dunduðu sér að mestu innandyra þegar tími gafst til því hér er rigningarúði og allt mjög blautt. Í kvöldmatinn fengu stelpurnar svo steiktan fisk, kartöflur og grænmeti og þær borðuðu með bestu lyst, enda langbesti fiskur sem völ er á J
Foringjarnir sáu um kvöldvökuna með leikjum og sprelli og að sjálfsögðu fengu þær að heyra stutta hugleiðingu um Guðsorð. Þegar allir voru komnir í náttföt og tilbúnir í rúmið kom á daginn að bænakonurnar voru týndar og því þurftu stelpurnar að klæða sig í pollagalla og stígvél og fara út í skóg að leita að sinni bænakonu. Það gekk mjög vel og þær fóru sáttar að sofa.
Þóra Jenny, forstöðukona.