Í gær var vinkonudagur í Vindáshlíð. Að því tilefni voru leikir sem reyndu á samheldni og vináttu. Um kvöldið var svo kaffihús þar sem foringjar þjónuðu til borðs, enda er kaffihús samkomustaður vinkvenna. Um kvöldið sýndum við svo myndina „Bend it like Beckham“ sem fjallar um vinkonur sem stunda fótbolta í Bretlandi. Bakgrunnur þeirra er ólíkur þar sem önnur er bresk en hin indversk.
Í gær var sunnudagur og af því tilefni var hugvekjan upp í kirkju. Þar fengu stelpurnar að heyra sögu Hallgrímskirju og flutning hennar til Vindáshlíðar þann 24. september 1957. Þó að sumar hafi oft fengið að heyra söguna áður er alltaf gaman að sjá hvað hlíðarmeyjum þykir vænt um litlu kirkjuna sína.
Við fengum óvæntan gest í heimsókn í vikunni. Hann heitir Salomon Hvíti og er heimalingur af bæ hér í Kjósinni. Salomon var eitthvað óþekkur því bóndinn hafði sett hann út í haga þar sem hann átti að sjá um sig sjálfur. En Salomon finnst skemmtilegara að vera innan um fólk og kom því að Vindáshlíð þar sem nóg er að fólki. Stelpunum fannst heimsóknin skemmtileg og fékk Salomon fullt af klappi og kjassi auk svolítið af brauði. Bóndinn er búinn að sækja Salomon og hann því komin heim til sín aftur.
Í dag er stúlkurnar búnar að sofa í Vináshlíð þrjár nætur og þær sem ekki höfðu gist hér áður teljast nú héðan í frá Hlíðameyjar.