Enn er glampandi sól og steikjandi hiti hér í Kjósinni. Gærdagurinn var enn skemmtilegri og veðrið leikur enn við okkur.
Hefðbundin dagskrá var hjá okkur fyrir hádegi í gær, eftir morgunmat fóru þær á biblíulestur og lærðu um handbragð skaparans, hvernig heimurinn er eins og bók eftir Guð og að við þurfum að reyna kunna að meta letrið hans, stórt sem smátt.
Strax eftir biblíulesturinn var haldin húllakeppni og auðvitað brennó.
Í hádeginu vegna veðurs sérstaklega voru grillaðar pylsur í sólinni. Eftir hádegi var farið í göngu að Pokafoss og Brúðarslæðu. Á Brúðarslæðu fengu stelpurnar að vaða og fara undir fossinn og þar var dágóðum tíma eytt enda gott að kæla sig aðeins í hitanum. Þær komu síðan sársvangar tilbaka og fengu þær bananabrauð og skúffukaka vegna þess að í gær var eitt afmælisbarn. Hún fékk aðsjálfsögðu Vindáshlíðarafmælissönginn 🙂
Kvöldvakan í gær var með þeim betri sem sögur fara af og heldur forstöðukonan því fram að hún hafi lengt lífið hennar um nokkur ár vegna hláturs. Hugleiðing kvöldsins fjallaði um hve einstakar við erum og að við erum skrautskrift Guðs, engar tvær eru eins.
Ró var komin á húsið rétt fyrir miðnætti. Enn einn dagur komin að lokum í yndislegu Hlíðinni.