Það hefur mikið verið um að vera í Vatnaskógi undanfarna dagana. Því miður gengur illa að koma myndum á vefinn vegna bilunar í sendibúnaði Emax hér í dalnum. Búnaðurinn hefur verið í ólagi síðan eftir þrumuveður þriðjudagsins. Við höldum þó áfram að reyna að setja myndir á vefinn.
Fimmtudagurinn var afar skemmtilegur við fengum gott veður og var nóg um að vera. Meðal dagskrárliða var fjallganga, en um 25 drengir gerðu sér lítið fyrir og gengu á fjallið Kambur norður af Vatnaskógi. Fjallið er um 800 metrar á hæð og sést vel yfir Hvalfjörðinn og Skorradalinn af toppnum. Bátarnir voru á sínum stað hluta dags en seinnipart dags var drengjunum boðið að láta draga sig á tuðru. Lætur nærri að um 80 drengir hafi nýtt sér það spennandi tilboð. Keppt var í knattspyrnu, skotbolta og kringlukasti svo fátt eitt sé nefnt.
Á föstudeginum var ágætis veður léttskýjað og frekar vindasamt.
Drengirnir kepptu í knattspyrnu og frjálsum íþróttum boðið var upp á streetballmót og einnig var þolinmóðum boðið að keppa í leiknum ‘Hvað gerðirðu við peningana sem frúin í Hamborg gaf þér’ og tóku ófáir því tilboði. Allur hópurinn fór fótgangandi hinum megin við vatnið og gengu þar upp gil og fengu að synda í læk sem rennur niður gilið. Þar er hylur sem skemmtilegt er að stökkva ofan í þannig að þetta er eins konar vatnsrenni brautargarður frá náttúrunnar hendi. Drengirnir fengu að prófa veltibílinn en góðvinir Vatnaskógar hjá Brautinni lánaði bílinn. Einnig var boðið upp á skemmtidagskrá eftir kvöldkaffi í stað þess að fara að sofa. Þá var boðið upp á ævintýra bátsferðir sem og ævintýragönguferð þar sem sykurpúðar voru grillaðir, í íþróttahúsinu var íþróttahátíð og pottapartý.

Í gær og í dag var margt um að vera og var meðal annars farið í útilegu og sofið undir berum himni og í kvöld var farið í sund.
Myndir má finna hér: http://www.kfum.is/nc/myndir/?g2_itemId=112259
FORELDRAR ATHUGIÐ HÓPURINN KEMUR HEIM ANNAÐ KVÖLD KLUKKAN 18.00