Annar ævintýraflokkur sumarsins er hafinn og fylla hann 92 fjörugir drengir margir vanir Skógarmenn, en einnig fáum við að bjóða nýja Skógarmenn velkomna í hópinn. Rúturnar renndu í hlaðið um 11.30 í gær og gengu drengirnir beint í matsalinn og völdu sér borð. Í Vatnaskógi er hópnum skipt á sjö borð og myndar hvert borð eina heild. Hvert borð hefur síðan sinn borðforingja.
Eftir að hafa komið sér fyrir snæddu drengirnir hádegismat klukkan 12 og í matinn voru ljúfengir kjúklinganaggar. Síðdegiskaffi var klukkan 15.00 og var boðið upp á skúffuköku og brauðbollu og í kvöldmat borðuðu drengirnir pasta ala Vatnaskógur. Í Vatnaskógi eru 5 matartímar á dag svo tryggt sé að allir séu sælir og vel mettir. Dagskráin í dag var að vanda fjölbreytt og boðið var upp á spennandi gönguferð um Vatnaskóg, gönguferðin var þó talsvert styttri en lagt var upp með þar sem að það rigndi hagléli á okkur. Stolt Vatnaskógar, bátaflotinn, var að sjálfsögðu nýttur ásamt því að þó nokkrir létu sig hafa það að busla í Eyrarvatni. Knattspyrnan var á sínum stað og hófst keppni í Svínadalsbikarnum, en borðin keppa innbyrðis um hinn eftirsótta bikar. Einnig var keppt í frjálsum í gær boðið var upp á langstökk án atrennu og kúluvarp. Í frjálsum íþróttum er bæði borðakeppni og einstaklingskeppni. Í íþróttahúsinu var fjölmargt í boði m.a. körfubolti, þythokkí, fótboltaspil, borðtennis, billjard og margt fleira.
Hópurinn virðist ná vel saman og hefur allt gengið að óskum þó veðrið hafi ekki verið mjög gott.
Eftir góðan nætursvefn voru drengirnir vaktir við fagran fuglasöng kl. 8.30 í morgun. Ævintýrin munu halda áfram að gerast í dag meðal þess sem boðið verður upp á er kraftakeppni Vatnaskógar, miðnæturhermannaleik ásamt fleiru spennandi. Í dag er útlit fyrir gott veður léttskýjað, hægur andvari og hiti i um 15°C.
Hér má finna myndir frá fyrsta degi:
http://www.kfum.is/nc/myndir/?g2_itemId=112261