Þessi dagur hefur vægast sagt verið viðburðarríkur. Að morgunverði loknum var farið í fánahyllingu í blíðskaparveðri og eftir Biblíulestur þar sem við ræddum um það hve Guð þekkir okkur allar vel, var brennókeppnin. Veðrið var enn gott, sól og hlýtt. Vel var borðað af lasagne í hádeginu með hvítlauksbrauði og grænmeti. Síðan skottuðust stúlkurnar út a leika. Við lögðum af stað í spennandi gönguferð inn með fjallinu Blákolli, en er við vorum komnar nokkuð á leið, heyrðust miklar drunur aftan við fjallið og það dimmdi hratt yfir. Við dokuðum við, vitandi ekki hve nærri skýfallið yrði, en er drunurnar komu aftur og stóðu nú mun lengur yfir, sáum við að skýfall varð framundan. Flýttum við okkur því til baka í Ölver, en rigningin náði hluta hópsins betur en þeim sem sneggstar voru heim. Þær sem lengur voru, sáu einnig eldingar með þrumunum og var það mikil upplifun!
Við slógum upp föndurveri í matsalnum og helst var spilað og perlað fram að kaffi. Glampandi sólskin var þegar farið var í heita pottinn, en síðan fór aftur að rigna, þessari lóðréttu og framandi rigningu sem við eigum ekki að venjast hér á Íslandi. Nú, eftir kvöldvöku og kvöldávaxtabita, er aftur glampandi sól og stilla sem fyrr. Fjölskrúðugur dagur er á enda og ró að færast yfir staðinn.
Með sólarkveðju úr Ölveri,
Ása Björk forstöðukona.