Annar dagurinn hjá okkur í Ævintýraflokknum stóð undir nafni. Þema dagins var bleikt&hvítt svo litasamsetning hópsins varð heldur einhæf og englaleg. Við buðum í góðri trú upp á val um tvær fjallgöngur í útiverunni, á Írafell eða Sandfell sem eru í nágrenni Vindáshlíðar, nema hvað að þegar stelpurnar voru nýlagðar af stað fór að hellirigna eins og í regnskógi. Annað eins hefur varla sést í Kjósinni fyrr eða síðar. Stelpurnar komu hingað aftur sem rennblautar hetjur, en það var samt hlýtt úti og engan sakaði. Í hádegismat voru kjúklingaleggir, stelpurnar umbreyttust í svanga úlfa þegar þær fengu fylli sína af smurbrauði og kökum í kaffinu eftir gönguferðirnar góðu. Í kvöldmatinn var svo dýrindis heimalöguð sveppasúpa og brauðbollur.
Leikur sem nefnist Ævintýrahúsið var í boði á kvöldvökunni. Stelpurnar horfðu á bíómynd í kvöldvökusalnum en einn og einn hópur var tekinn í ferð úti við í einu, allar með bundið fyrir augun og leiddar milli karaktera úr Disney myndum þar sem þær þurftu að leysa þrautir og hjálpa persónunum, ýmist blindar eða sjáandi. Stelpunum fanns þetta æðislegt. Meðal persóna voru Hades, andinn úr Alladín, dýrið, Öskubuska, Quasimoto í klukkuturninum o.fl.
Á biblíulestrum og hugleiðingum dagsins fjölluðum við um sköpunina, náttúruna og fullkomnleika hennar. Myndir frá þessum skemmtilega degi má sjá hér.