Það voru kátar stelpur sem vöknuðu við afmælissöng afmælisbarns dagsins. Boðið var upp á kókópöffs á eftir einhverju hollara morgunkorni og síðan var fánahylling í sólinni. Farið var að pakka og náðu margar að ljúka því verki fyrir Biblíulesturinn. Í honum fór ég með þeim í gegnum nöfn þeirra og tengdi við menningarsögu okkar, gríska goðafræði og Biblíuna. Margt skemmtilegt kom út úr því. Eftir lokalagið okkar þustu foringjarnir inn, málaðar og í búningum, til að ná í stúlkurnar í síðustu brennókeppni flokksins. Þar keppti sigurliðið við foringjana og síðan kepptu allar stúlkurnar við foringjana og höfðu gaman af.

Eftir hádegismatinn fóru þær í pottinn og/eða sturtu sem ekki höfðu gert það í gær, en í matsalnum var boðið upp á að setja fastar fléttur í þær sem það vildu og við dunduðum okkur einnig við að perla, strauja og líma nælur aftan á þau listaverk sem voru nógu létt fyrir nælurnar. Einhverjar stúlkur voru líka úti að leika í góða veðrinu. Í kaffitímanum var aftur sungið fyrir afmælisstúlkuna sem einnig fékk kórónu og köku með kerti á. Eftir kaffi voru allar komnar í betri fötin og þá var frjáls tími sem þær nýttu vel til að njóta fallega umhverfisins hér í kringum húsin í Ölveri. Farið var út með töskurnar og útifötin sett niður. Það var fyndið að sjá eina og eina í glerfínum kjól og í gúmmístígvélum, því skónum hafði þegar verið pakkað!

Hátíðakvöldverðurinn er alltaf hápunktur hátíðaleka þessa dags, en í dag var boðið upp á heimabakaðar pizzur með miklu áleggi. Í eftirrétt var boðið upp á ís og svo hófst verðlaunaafhendingin eftir allar keppnir flokksins. Það sést allt á myndunum hér með. Eftir matinn var komið að síðustu kvöldvökuna og jafnframt síðasta dagskrárlið flokksins. Foringjarnir sáu um skemmtiatriðin og var mikið hlegið.

Þetta hefur verið alveg sérlega ánægjuleg vika, þar sem saman fara skemmtilegar stelpur og frábær starfshópur. Við þökkum fyrir lánið á stelpunum og hlökkum til að sjá þær aftur að ári.

Með kærri kveðju úr Ölveri á þessum fallega og sólbjarta degi,
Ása Björk Ólafsdóttir, forstöðukona 5. flokks.