Sjötti dagur Ölversvikunnar er að kveldi kominn og erum við búnar að upplifa allar gerðir veðurs í dag. Eftir þægilegan morgun, kom léttur úði, sem kom þó ekki í veg fyrir að við gætum haft ratleikinn á þessum næstsíðasta degi. Eftir kaffi var síðan komin meiri rigning og héldum við því bingó í matsalnum. Vinningarnir voru mjög frumlegir, en allir vinsælir. Má þar nefna kærleiksverðlaun sem gáfu leyfi til að setjast inn í eldhús hjá starfsfólki og búa til eftirrétt, ein fékk að sitja í foringjasófanum á kvöldvöku, nokkrar fengu fuglafit, nokkrar ávísun á fastar fléttur hjá foringja og svo mætti lengi telja. Helmingur stúlknanna fór í heita pottinn, en hinn helmingurinn fer á morgun.
Eftir skemmtilega kvöldvöku, þar sem stúlkurnar í Hamraveri sýndu leikrit og stýrðu leikjum, var boðið upp á vatnsmelónu og kartöfluvínarbrauð í matsalnum fyrir svefninn. Ró er komin á eftir annasaman dag og allar fara sáttar að sofa.
Ég horfi út um gluggann hér í Ölveri og sé Snæfellsjökul baðaðan sól og birtu, sem einnig sést á kyrrum trjátoppunum hér á sama tíma og ég sé létta og lóðrétta rigninguna rétt utan við gluggann. Óhemjufögur sjón.
Rútan leggur af stað héðan úr Ölveri á sunnudagskvöld klukkan 20:30 og á að koma í aðalstöðvarnar á Holtavegi um klukkan 21:30.
Kærleikskveðjur héðan úr stelpufjörinu,
Ása Björk forstöðukona.