Þá er þriðji dagur þessarar viku að verða liðinn. Eftir náttfatapartý gærkvöldsins sváfu stúlkurnar vel og lengi. Þær voru ekki vaktar fyrr en klukkan níu í morgun og hefðu margar getað sofið lengur. Eftir morgunmat var fánahylling, þar sem fáninn er dreginn að húni og hylltur með fánasöng. Vel var tekið til í herbergjunum og fyrir hádegisverð var síðan bæði brennó og Biblíulestur. Vel var borðað af hakki og spaghettíi og brutust út mikil fagnaðarlæti þegar tilkynnt var að nokkru síðar yrði haldin hárgreiðslukeppni. Margar bæði frumlegar og glæsilegar hárgreiðslur voru sýndar dómurunum, myndir teknar, sem þið sjáið hér á síðunni, og síðan verða dómarnir kunngjörðir á veisludegi og verðlaunaafhending fer þá fram.

Eftir veisluborð í kaffinu, var frjáls tími til að leika. Margar notuðu þá tækifærið og prófuðu dósastulturnar sem mæðgurnar Súsanna og Írena höfðu búið til í gærkvöldi. Síðan var íþróttakeppnin og heiti potturinn í kjölfar hennar. Súrmjólk með ávöxtum rann ljúflega niður í magana ásamt smurbrauði og það voru stúlkurnar í Hlíðarveri sem sáu um leikrit og leiki á kvöldvökunni. Skemmtilegur dagur með jákvæðum stúlkum þrátt fyrir að veðrið væri alls ekki fullkomið.

Með kveðju úr fagurri kvöldkyrrðinni í Ölveri,
Ása Björk forstöðukona.