Í dag var mikil gleði og mikið gaman. Eftir fánahyllingu, morgunstund og morgunmat fengu krakkarnir að klára seinustu mínúturnar af Pétur Pan myndinni sem þau byrjuðu á í gær. Eftir að myndin kláraðist voru haldnir hinir æðislegu Furðuleikar, þar sem keppt er í furðulegustu íþróttagreinum. Meðal annars má keppa í rúsínspýtingum, appelsínureki, stígvélasparki, hús- og pokahlaupi, sippkeppni og kraftlyftingum. Leikarnir fóru mjög vel að þessu sinni og allir sem tóku þátt í flestum greinunum með góðum árangri. Eftir að allir höfðu klárað þrautirnar fórum við í nokkra hópleiki inn í íþróttasal þar sem það var ansi hvasst úti. Svo var hringt inn í hádegismat og krakkarnir borðuðu kjötobllur og spjölluðu saman um daginn og veginn. Eftir hádegismat var mikið leynimakk í gangi. Börnin fengu ekki að vita afhverju við völdum akkúrat Pétur Pan til að horfa á. Við vorum nefnilega búin að skipuleggja svokallaðan Pétur Pan leik. Sá leikur gekk þannig fyrir sig að krakkarnir héldu að þeir væru að fara í venjulegan göngutúr en í raun var meirihluti starfsfólksins búið að klæða sig upp í viðeigandi búninga og biðu krakkanna inn í skógi þar sem leikurinn átti að eiga sér stað. Pétur Pan sjálfur beið þeirra með pan flautu í hendi og bað krakkana um að hjálpa sér að finna fjársjóð sem Kobbi Krókur hafði stolið. Þegar þau ásamt Pétri voru búin að hitta Vöndu birtust skyndilega Kobbi krókur og fylgismaður hans, Smiður og með það í huga að yfirbuga Pétur Pan og týndu krakkana. Pétur Pan sigraði að sjálfsögðu bardagann og Kobbi Krókur flúði með skottið á milli lappanna. Síðan fundu Pétur og krakkarnir fjársóðinn. Fjársjóðurinn samanstóð af Brauðbollum, smjöri og osti, jarðarberjasultu, Pétur Pan hnetusmjöri og kókósbollum. Það var frábært að taka þátt í leiknum með krökkunum sem lifðu sig sannarlega inn í leikinn og þeim þótti erfitt að hætta að nota Pétur Pan nöfnin á starfsfólkið eftir leikinn.
Hlökkum til að sjá ykkur aftur á morgun!
Kveðjur úr Kaldárseli.