Mánudagur í Vindáshlíð hófst með hálftíma útsofi vegna mikillar dagskrár kvöldið áður. Veðrið var skýjað var en hélst samt hlýtt og þurrt. Við vorum með hoppukastala úti á fótboltavelli sem vakti mikla gleði stelpnanna sem nýttu sér hann óspart allan daginn. Íþróttakeppnir dagsins voru t.a.m. broskeppni sem er mæling á stærsta brosinu auk brennókeppna dagsins. Í hádegismat var ofnbakaður fiskréttur, kökur í kaffinu og pulsupasta í kvöldmat.
Við tilkynntum um óvænta brunaæfingu að morgni dags sem yrði einhvern tíman yfir daginn og um tvöleitið settum við brunakerfið í gang. Stelpurnar þustu út um næsta útgang á sokkaleistunum og jafnvel berfættar og söfnuðust saman úti á fótboltavelli. Það gekk eins og í sögu.
Stelpurnar gengu upp með læknum í útiverunni og má sjá myndir af því hér. Allt gengur vel hérna í hlíðinni og stelpurnar hafa það afspyrnu gott.