Hress, kát og nývöknuð börn stigu út úr rútunni rúmlega átta í morgun. Þar biðu foringjar eftir þeim með fána í hönd og við skelltum honum upp saman með söng og tilheyrandi. Þar á eftir skottuðust börnin upp í sal til að hlýða á morgunsögu og syngja saman söngva. Í hugleiðingunni talaði forstöðukonan um hæfileika og hvernig þurfi að rækta þá og nýta til góðs. Þegar krakkarnir fengu að ræða um hvaða gáfur þau fengu í vöggugjöf kom í ljós að flestir virtust luma á ýmsu sem þau töldu sig gera nokkuð vel. Það var gott að heyra. Eftir morgunhressingu buðum við upp á kassabílarallý og margt fleira. Fram að hádegi léku börnin sér á frjálsan hátt og skemmtu sér vel. Eftir hádegi héldum við hópurinn upp að rótum Helgafells og skrifuðum í móbergið með nagla. Eftir að allir höfðu skrifað nafnið sitt buðum við þeim sem höfðu áhuga og þor í hetju-göngu upp á topp Helgafells. Átta sannkallaðar hetjur fóru með þrem foringjum upp á topp og við skemmtum okkur konunglega sem fórum. Krakkarnir voru yndislegir og nutu sín til hins ítrasta á göngunni. Þegar á toppinn var komið borðuðum við skinkuhorn og formkökur. Leiðin heim gekk greiðlega og við vorum komin aftur um hálf fjögur leytið, þrem tímum eftir brottför. Ekki slæm gönguferð það! Skiljanlega voru börnin dálítið þreytt og því ákváðum við að leyfa þeim að horfa svolítið á Pétur Pan kvikmynd. Sú mynd tengist því sem við ætlum að gera á morgun, en ég ætla ekki að fara nánar út í það ef svo skyldi að einhver börn frétti af færslunni í kvöld. Það eina sem ég get sagt er að það verður rosalega skemmtilegt og spennandi. Þegar myndin var í gangi fengu krakkarnir smá popp til að narta í. Þeim líkaði það ekki illa.
Hlökkum til að sjá alla aftur á morgun,
Kveðjur úr Kaldárseli.