Þá er fyrsti dagur leikjanámskeiðsins í Kaldárseli á enda kominn. Klukkan átta í morgun söfnuðust saman tólf krakkar sem áttu það öll sameiginlegt að vera á leið upp í Kaldársel til að taka þátt í leikjanámskeiði og einnig seinasta flokki í Kaldárseli þetta sumar. Dagurinn var afar ánægjulegur. Þegar við stoppuðum á hlaðinu í Kaldárseli var krökkunum smalað upp að fánastöng, þar sem við hylltum fánann á viðeigandi hátt. Eftir fánahyllingu höfðum við litla morgunstund þar sem við sungum eilítið og börnin fengu að heyra stutta sögu. Við töluðum um fegurð sköpunarinnar og hversu mikilvægt það er að ganga vel um jörðina okkar. Að morgunstund lokinni var frjáls tími og börnin fengu tækifæri til að kynnast staðnum og þeim möguleikum sem hann býður upp á. Það er alltaf vinsælt að leika sér út í hrauni í hellunum þar sem hægt er að setja upp lítil bú og leika sér. Sumir keyrðu kassabíla á meðan aðrir tóku til við að smíða kofa eða annað timburverk. Eftir drjúgan tíma við leik og skemmtun hringdum við inn í hádegismat; í matinn var grjónagrautur og brauðmeti. Eftir hádegismat fórum við í stuttan göngutúr upp í Kaldárshella sem er hellaröð hér skammt undan. Þar voru faldir nokkrir grjónapokar sem börnin áttu svo að finna sér til skemmtunar. Svo tóku nokkur börn upp á því af sjálfsdáðum að týna upp rusl sem þau fundu á víð og dreif, okkur til mikillar ánægju. Þá upplifðum við að sagan um morguninn hafði hvatt þau til dáða. Í þann mund er við héldum heim á leið byrjaði að rigna örlítið á okkur en börnin voru vel útbúinn með regnföt í pokanum og því engin veruleg hætta á ferð. Heima í Kaldárseli sagði Sigursteinn sögumeistari nokkra brandara börnunum til skemmtunar áður en við opnuðum dyrnar inn í matsalinn og við fengum okkur smá miðdegishressingu. Eftir kaffi opnaði listasmiðjan þar sem krökkunum bauðst að mála, lita eða gera vinabönd. Inn í íþróttasal var boðið upp á skotbolta og aðra boltaleiki. Klukkan hálffimm fórum við upp í sal til að heyra framhaldssögu á meðan við höfðum enn tíma áður en foreldrarnir sóttu börnin um fimm leytið.
Okkur starfsfólkinu þykir ekki leiðinlegt að taka á móti svona flottum hóp og hlökkum til að sjá þau aftur á morgun.
Kveðjur úr Kaldárseli!