Annar dagur stelpnanna hérna í Vindáshlíð var sólríkur og fallegur. Hér var hlýtt og gott veður sem hélst allan daginn og liggur við að met hafi verið slegið í busli í læk og blautum handklæðum. Þennan dag var keppt bæði í Hlíðarhlaupinu góða þar sem stelpurnar hlaupa niður að hliði á tíma, og kraftakeppni. Svo fóru þær líka í göngu niður að réttum þar sem farið var í ýmsa leiki og kindaleiki. Eftir hádegismatinn, sem var hin klassíska blanda af hakki og spagettí, var blásið til smá vatnsstríðs sem margir tóku þátt í og gæti það útskýrt fyrrnefndan fjölda blautra handklæðna. 🙂
Brennókeppnirnar voru á sínum stað yfir daginn og ekki við öðru að búast en æsispennandi keppnum þar. Á biblíulestri dagsins var áhersla á að hver og ein okkar er mismunandi og fullkomin sköpun Guðs og allar stelpurnar fengu að stimpa fingrafar sitt á kross því ekkert þeirra er eins. Kvöldvakan kitlaði hláturtaugarnar og hlíðarsöngvarnir óma sem aldrei fyrr í flokknum okkar.