Í dag lauk 4. flokki í Vindáshlíð. Fyrsta daginn rigndi örlítið og svo aftur í dag, brottfarardaginn. En alla hina dagana höfum við haft yndislegt veður. Dvölin heppnaðist vel í alla staði og voru bæði stúlkur og starfsfólk ánægt með samveruna. Stúlkurnar hafa allar tekið út mikinn þroska þessa viku enda margar sem voru í fyrsta sinn að heiman í svona langan tíma.
Í gær var veisludagur og skemmtu sér allir einstaklega vel. Eftir brennókeppni við foringja og hárgreiðslukeppni stúlknanna var gengið til veislu í fínum fötum. Veislan hófst með því að farið var á fána og á bakaleiðinni var sungið "vefa mjúka." Stúlkurnar bjuggu til langa keðju alla leið frá fána og niður á grasflöt þar sem búinn var til vafningur. Þá bar svo til að "Benjamín dúfa" (bréfdúfa sem villtist og var tímabundið hjá okkur) flaug yfir hópinn, eins og hann vildi fá að vera með í leiknum. Á meðfylgjandi mynd má sjá þetta augnablik fangað á myndavél.
Þessi gjörningur var eins og táknmynd um nærveru heilags anda. Þær sem hafa dvalið í Vindáshlíð efast ekki um þessa nærveru sem er sérstaklega áþreifanleg í Vindáshlíð. Við þökkum fyrir góða samveru.