Þá er skemmtilegur dagur að kvöldi kominn og stelpurnar voru fljótar að sofna.
Í morgun var biblíulestur og brennókeppni að vanda en eftir hádegismat var farið í göngutúr niður að á hér í nágrenninu. Það var hlýtt í veðri þó sólin léti ekki sjá sig mikið. Hjá ánni fengu þær að vaða ýmist berfættar eða í stígvélum og þótti mikið sport. Eftir kaffi var svo komið að hinni sívinsælu hárgreiðslukeppni sem mikið hafði verið beðið eftir hér.
Kvöldvakan var svo mjög fjörug og voru frumsamin leikrit í boði frá stelpunum að þessu sinni og féllu þau í góðan jarðveg. Í þann mund sem að bænakonurnar áttu koma í bænaherbergi fékk hvert herbergi bréf þess efnis að bænakonan þeirra væri týnd og þær þurftu að fara að leita að henni. Þær þutu þá út og fundu bænakonur í ýmsum skrítnum búningum. Þegar inn var komið var svo mikið dansað og fjör. Þær voru því snöggar að sofna eftir að hafa náð sér niður eftir fjörið með söng frá foringjum.
Bestu kveðjur úr kvöldroðanum í Ölveri,
Björg Jónsdóttir, forstöðukona.