Yndislegt veður var í Vindáshlíð í gær. Milt loft og hálfskýjað sem var heppilegt veður fyrir gönguna að fossinum sem Hlíðarmeyjar kalla Brúðarslæðu. Foringjarnir tóku nesti með í bakpoka, en það voru múffur og kanilsnúðar. Stelpurnar fengu aðeins að vaða í ánni áður en gengið var til baka.

Að göngu lokinni fengu stúlkurnar að verja tíma sínum eftir eigin höfði. Sumar héldu áfram að leika sér úti í góða veðrinu og er margt skemmtilegt hægt að gera. Þær sem þreyttar voru orðnar á útiveru fundu upp á ýmsu innan dyra s.s. að teikna myndir og búa til vinabönd eða bjóða upp á ýmsa þjónustu á herbergjunum s.s. hársnyrtingu og baknudd.
Eftir kvöldmat var hefðbundin kvöldvaka og kvöldhressing. En þegar þær voru komnar í náttfötin og tilbúnar að leggja sig birtust foringjarnir í náttfötum með skrýpalega málningu í framan og drógu þær fram í náttfatapartý. Þessi náttfatapartý eru fastur liður en koma alltaf á óvæntum tíma fyrir stelpurnar. Vindáshlíðar náttfatapartý eru alltaf eftirminnileg enda mikið fjör bæði hjá stúlkum og foringjum. Má vart á milli sjá hvort stelpur eða foringjar skemmta sér betur. Þegar ró var komin aftur á og hver stúlka í sína koju mátti heyra hvíslað: "ég vildi að það væri alltaf náttfatapartý" -en svo voru þær steinsofnaðar á mettíma.