Þrátt fyrir að áin hafi enn ekki látið á sér kræla í Kaldárseli sökum lágrar grunnvatnsstöðu, hafa 35 hressar og skemmtilegar stelpur ekki látið það skemma gleðina og spenningin sem fylgir því að mæta í sumarbúðir. Klukkan tíu brunuðum við upp í Kaldársel í rútu og eins og alltaf er dálítið rafmagnað andrúmsloft á leiðinni. Allar spenntar, sumar kannski örlítið smeykar eins og gengur og gerist. Eftir að reglur Kaldársels voru kynntar og rúmplássum hafði verið útdeilt tóku stelpurnar til við leik og skemmtun í nágrenni Kaldársels. Fyrir hádegi fór tíminn mest í það að kynnast svæðinu og hver annarri, skoða möguleika og kanna helstu svæði. Eftir hádegismat héldum við í drjúgan göngutúr um svæðið; byrjuðum á því að skoða álfakirkjuna sem er hraundrangi sem stendur eina tíu metra upp í loftið og svo niður í Kaldárselshella þar sem gaman er að skoða, klöngrast og ef til vill fela sig fyrir ráðvilltum foringjum! Eftir að helstu hellar höfðu verið skoðaðir settumst við niður og fórum í leiki og spjölluðum um lífið og tilveruna. Svo héldum við heim í kaffi. Eftir dýrindis bakkelsi og djús var boðið upp á kofasmíð og búleiki út í hrauni. Búleikurinn breyttist þó fljótt í allsherjar drullumall, þar sem stelpurnar, með hjálp foringja, bjuggu til glæsilega eyju í árfarveginum með hjálp vatnsslöngu sem var leidd út innan úr húsi. Glæsilegt mannvirki sem fær án efa að standa þangað til vatn rennur aftur í ánni. Svo var kallað inn í kvöldmat þar sem stelpurnar gæddu sér á mexíkóskum flatkökum með tilheyrandi og allir voru saddir og glaðir þegar þeir stigu útúr matsalnum. Eftir nokkrar mínútur af frjálsum tíma var hringt inn í kvöldvöku sem venju samkvæmt var stútfull af söngvum, leikritum og að sjálfsögðu hugleiðingu. Við höfum þann háttinn á að hverju sinni er valið eitt borð (5-7 stelpur) sem fær að sjá um að skipuleggja leikrit eða annað til að framflytja á kvöldvökunni. Stelpurnar kusu að færa nokkra brandara í leikritabúning og tókst sannarlega vel til í þetta sinn. Eftir hugleiðingu og lokalag var boðið upp á kvöldkaffi en þar geta stelpurnar gætt sér á ávöxtum áður en þeim er smalað inn í herbergi til að hátta sig, finna tannburstann og svo skríða loks upp í rúm. Þar kemur inn þeirra foringi til að lesa kvöldsögu og koma á ró fyrir nóttina. Við vorum heppin með veður þrátt fyrir að það hafi verið örlítill kuldi. Sólin skein samt sem áður og gaf okkur fallegan og skemmtilegan dag hér í Kaldárseli.
Kveðjur úr Selinu!
p.s. myndir frá deginum má finna á myndasíðu Kaldársels hér á www.kfum.is