Nú er annar dagurinn hafinn í 4. flokki í Vindáshlíð með 9-10 ára stúlkum. Meirihluti þeirra er að koma í fyrsta sinn í Vindáshlíð og því margt sem þær eru að sjá, heyra og uppglifa í fyrsta sinn. Í gær var skipt í herbergi og passað upp á að allar vinkonur sem vildu vera saman í herbergi fengju að vera saman.
Eftir að hafa kannað svæðið, skoðað Aparóluna, apabrúna, lækinn og fleira skemmtilegt hófst ratleikur. Við vorum ekki heppnari en svo, að lítil rigningarskúr sem lá yfir Kjósinni ákvað að stoppa yfir Vindáshlíð á meðan á ratleiknum stóð. En stelpurnar voru vel búnar regnfötum sem betur fer.
Í gær var einnig keppt í brennó milli herbergja, boðið upp á vinabandagerð og broskeppni (hver er með stærsta brosið?). En utan dagskrár geta þær leikið sér (feluleikur er vinsæll), heimsótt nærliggjandi herbergi, spjallað við foringja í setustofunni og leikið sér á stultum, svo fátt eitt sé nefnt.
Í lok dagsins, eftir hugvekju og kvöldvöku sögðu margar stelpur, með bros á vör, að þeim liði eins og þær væru búnar að vera í Vindáshlíð í minnst 3 daga 🙂 Þannig eru dagarnir í Vindáshlíð, það gerist svo margt að einn Vindáshlíðardagur er á við marga venjulega daga.
Það voru mjög þreyttar stelpur sem fóru í háttinn í gærkvöld og þær voru ótrúlega duglegar miðað við hvað þær eru ungar að árum og sumar hafa ekki gist áður í sumarbúðum. Við sjáum að hér eru sprækar Hlíðarmeyjar á ferð sem eiga eftir að koma heim með ótal góðar minningar eftir vikuna.