Hér í Vindáshlíð hafa dagarnir flogið hjá en það gerist gjarnan þegar maður hefur gaman. Stúlkurnar vöknuðu við ljúfan söng og eftir morgunverkin settust þær í matsalinn þar sem þeirra beið morgunverður. Að honum loknum fóru þær upp að fána með Nýja testamentin sín undir hönd, tilbúnar til að mæta á biblíulestur eftir fánahyllingu. Á biblíulestrinum lærðu þær um vinasamband Guðs og manns og fengu að heyra fagnaðarerindið um Jesú. Eftir biblíulesturinn var úrslitaleikur í brennókeppni þar sem Lækjarhlíð bar sigur úr bítum og einnig var boðið upp á vinabandagerð og fleira.
Í hádegismatinn fengu stúlkurnar steikta ýsu í raspi, með hrísgrjónum og salati og safa að drekka.
Eftir hádegismatinn var æsispennandi brennóleikur þar sem fulltrúar foringja í ofurhug kepptu við sigurliðið. Liðin háðu mjög harða baráttu sem lauk þó með því að foringjar sigruðu. Því næst kepptu foringjar á móti öllum stúlkuhópnum en þær höfðu betur og unnu.
Þar sem veðrið var hið ljúfasta og bjartir geislar sólarinnar léku sér um alla hlíð var stúlkunum boðið upp á kaffihressingu utandyra og gæddu þær sér á súkkulaðikökum og gerbollum með mjólkursopa.
Fram að kvöldmat var svo göngugata og vinadekur og buðu herbergi stúlknanna upp á ýmiss konar dekur á borð við axlanudd, hárgreiðslu, förðun og fyrirmyndar naglaskreytingar.
Þegar stúlkurnar voru komnar í sparidressin og búnar að hafa sig til fyrir veislukvöld lá leið þeirra upp að fána og var hann tekinn niður við fagran söng stúlknahópsins. Því næst ófu þær mjúka dýra dúka og stilltu sér upp með sparibrosið fyrir framan myndavélina áður en haldið var inn í matsal til veislukvöldverðar. Boðið var upp á pitsu og bleikan gosdrykk og yfir borðhaldinu voru úrslit hinna ýmsu keppna tilkynnt og sigurvegurum fagnað.
Kvöldvakan hófst svo klukkan átta og þar sýndu foringjar ýmis gamanatriði við góðar undirtektir hjá stúlkunum. Hlíðarsjónvarpið lét sig ekki vanta og rifjuðu fréttamenn upp ýmislegt gamansamt sem gerst hafði í flokknum, eða Besta flokkinum, eins og hann hefur verið kallaður.
Að skemmtiatriðum og söng loknum héldu stúlkurnar upp í setustofu þar sem þær sungu og hlýddu svo á hugleiðingu á meðan þær gæddu sér á frostpinnum. Enn og aftur var stúlkunum boðið að tannbursta sig í læknum og nýttu margar þeirra sér þetta síðasta tækifæri í sveitinni áður en þær fóru og hittu bænakonurnar sínar. Stúlkurnar sofnuðu nokkuð fljótt og sváfu vært og rótt þessa seinustu nótt í Vindáshlíð.
Þetta hefur verið virkilega frábær ævintýraflokkur, stelpurnar voru ákaflega hressar, jákvæðar og hugmyndaríkar og andrúmsloftið í Hlíðinni hefur verið yndislegt og einkennst af mikilli vináttu og lífsgleði. Veðrið hefur komið okkur skemmtilega á óvart, þar sem við bjuggumst ekki við svona mikilli blíðu og sólskini. Þó hefur sólskinið verið það mikið undanfarna mánuði að við lentum í smá vatnsskorti en fengum sérkeyptan tank utan af landi fyrir drykkjarvatn og kom tankurinn í tæka tíð fyrir veislukvöldið. Því hafa stúlkurnar drukkið meira af safa og mjólk en vanalegt er í flokkum – en þetta var bara enn eitt ævintýrið og sennilega hefur þetta kennt okkur hvað vatnið okkar er óendanlega dýrmætt.
Kærar kveðjur
Ingunn Huld og Bára forstöðukonur.