Það hefur svo sannarlega verið líf og fjör hér í Vatnaskógi. Eftir morgunstund í gær var boðið upp á knattspyrnu, aflraunakeppnin hélt áfram og einnig var smíðaverkstæðið opið. Í hádegismat var boðið upp á ljúffengar kjötbollur. Á milli matartíma, sem eru 5 talsins hér í Vatnaskógi, er svo frjáls tími þar sem drengirnir geta valið á milli nokkura dagskrárviðburða s.s. knattspyrnu, frjálsar íþróttir, útileikir, bátar og einnig er íþróttahúsið sívinsælt.
Í gær var hvasst hér í Vatnaskógi og því var ekki hægt að opna báta en eftir kvöldmat buðu bátaforingjar upp á siglingar á gúmmíbát. Það var mjög vinsælt og margir drengir sem brugðu sér á siglingu með foringja.
Fyrsti ævintýralegi viðburðurinn var svo í gærkveldi er drengirnir voru vaktir skömmu eftir ró og fórum við út í Oddakot sem er hér við austurenda vatnsins. Þar var farið í hermannaleik og drengjunum skipt í þrjú lið og barist er um að ná klemmum af öxl andstæðingsins. Leikurinn tók einstaklega vel og það voru þreyttir en mjög ánægðir drengir sem að sofnuðu að leik loknum.
Í morgun fengu þeir svo að sofa hálftíma lengur og vakning var kl. 09:00. Dagurinn fer vel af stað og þegir þessi orð eru skrifuð eru drengirnir allir úti og byrjaðir í verkefnum dagsins.

Hér má sjá myndir frá gærdeginum.

Vatnaskógarkveðja
Þráinn Haraldsson, forstöðumaður.