Dagurinn hefur verið bjartur og fagur í Ölveri og stelpurnar sannarlega notið blíðunnar. Það var þó skýjað í morgun á meðan á biblíulestri stóð og þegar brennóið stóð sem hæst en sólin gerði vart við sig upp úr hádegi. Þá var hin sívinsæla hárgreiðslukeppni sem margar höfðu beðið spenntar eftir og jafnvel æft sig fyrir, fyrr um daginn. Kaffitíminn var svo hafður niðri í laut og fjörinu haldið áfram í kjölfarið. Þá var sett upp vatnsrennibraut í brekkunni og stelpurnar renndu sér og hlógu þess á milli. Hefðbundin pottaferð var svo fyrir kvöldmat og tilheyrandi vatnagaman.
Enginn hafði fengið nóg af því að vera úti og þess vegna var kvöldvakan færð út undir bert loft. Í grasinu sátu glaðar stelpur í sólinni, sungu og horfðu á skemmtiatriði frá stelpunum í Skógarveri sem höfðu vandað undirbúninginn fyrr um daginn. Eftir hugleiðingu lauk kvöldvökunni og það voru stelpur rjóðar í kinnum sem fóru í háttinn í kvöld.
Ölverskveðjur,
Björg Jónsdóttir forstöðukona