Stúlkurnar vöknuðu við ljúfan gítarleik og fengu sér morgunmat. Að honum loknum héldu þær upp að fána þar sem þær sungu fánasönginn á engilsaxnesku á meðan fáninn var dreginn að húni. Því næst fóru þær á biblíulestur þar sem þær lærðu um mikilvægi þakklætis. Eftir biblíulesturinn kepptu stúlkurnar apabrúhlaupi, bjuggu til vinabönd eða kepptu í brennó og nutu lífsins hér í sveitinni. Í hádegismatinn var svo ekta amerískur matur, hamborgarar og franskar og sungu stelpurnar borðsönginn á ensku fyrir máltíðina.
Um tvöleytið hófst svo hin æsispennandi keppni ,,Amazing race“, stelpurnar fóru milli staða og söfnuðu stigum með því að leysa ýmsar þrautir.
Í kaffinu fengu stelpurnar formkökur og kanillengjur og að kaffitíma loknum fengu stúlkurnar tækifæri til að undirbúa atriði fyrir kvöldskemmtunina ,,Vindáshlíð’s got talent“.
Í kvöldmatinn fengu stelpurnar ljúffenga sveppasúpu og smurt brauð.
Hæfileikasýning kvöldsins var stórkostleg skemmtun, enda stúlkurnar allar virkilega hæfileikaríkar. Atriðin voru fjölbreytt og framkölluðu bros á mörgum andlitum sem og stolt í hjarta foringja og forstöðukvenna.
Í kvöldkaffi fengu stelpurnar kex og kakómjólk, hlýddu svo á hugleiðingu, sungu saman og í enduðu daginn á stund með bænakonum.