Það voru syfjaðar stúlkur sem vaktar voru í morgun, en þær borðuðu vel af hafragraut og hollu morgunkorni áður en þær fengu einn disk hver af kókópöffsi. Í Biblíulestrinum sem var eftir fánahyllingu, fórum við yfir nöfn þeirra með tilliti til tengsla við Biblíuna, náttúruna og forna íslenska/norræna hefð. Í lok stundarinnar komu foringjarnir málaðir, með þvílík læti og buðu stelpunum upp á að keppa við foringja og matvinnungahópinn í brennóbolta. Foringjarnir unnu leikinn, en stelpurnar veittu þeim mjög harða keppni.
Þegar stúlkurnar höfðu pakka saman dótinu sínu í nokkra stund, var grjónagrautur í hádegismatinn og smurt brauð. Þá var haldið áfram að pakka og að því loknu fóru allar í pottinn og/eða sturtu. Þær fengu fléttun sem vildu og fóru í betri fötin. Í kaffinu var boðið upp á ölversbollur og ræs-krispískökur.
Hátíðakvöldverðurinn var heimagerðar pizzur, gos og ís- / frostpinni. Kvöldvakan var með fyrra fallinu, foringjarnir sáu um leikrit og ýmsar óborganlegar uppákomur. Af kvöldvökunni var farið beint í rútuna og niður á Holtaveg.
Það er óhætt að segja að þessi flokkur hafi verið mjög skemmtilegur og margar fjörugar stúlkur látið ljós sitt skína. Starfshópurinn er með því allra besta sem gerist og þannig hefur sú þétta dagskrá sem boðið hefur verið upp á, gengið upp.
Ég vil, fyrir hönd starfshópsins hér í Ölveri, þakka kærlega fyrir vikuna með þessum yndislegu stúlkum og fullyrði að vikan verði okkur öllum í fersku minni um langan tíma.

Með kærleikskveðju,
Ása Björk Ólafsdóttir forstöðukona.

Fleiri myndir frá deginum koma inn á næstu dögum.