Sunnudaginn 20. júní fagna sumarbúðirnar Hólavatni 45 ára vígsluafmæli og verður skemmtileg fjölskyldudagskrá af því tilefni. Dagskráin hefst strax að morgni með Hólavatnshlaupi en þá gefst vinum og velunnurum Hólavatns færi á að hlaupa eða hjóla frá Akureyri að Hólavatni, tæplega 40 km leið. Nú þegar hafa um 20 þátttakendur skráð sig til leiks en hægt er að skipta vegalengdinni niður og hjálpast þannig að við að ljúka áfanganum. Allar nánari upplýsingar um hlaupið og skráningu má finna á http://holavatnshlaup.blogspot.com Fjölskyldudagskrá hefst svo á Hólavatni kl. 14.00 með ávarpi formanns Hólavatns. Að því loknu mun Heimir Ingimarsson leiða söng og fá börnin að vera í aðalhlutverki. Þá verða dregnir út heppnir vinningshafar úr hópi þátttakenda úr hlaupinu fyrr um daginn. Að þessu loknu verður gestum boðið uppá afmælisköku og kaffi og jafnframt verður nýbygging staðarins til sýnis en nú nýlega hefur húsinu verið lokað og er því stórum áfanga fagnað á þessum tímamótum. Samhliða þessu njótum við þess sem staðurinn hefur uppá að bjóða, bátsferðir, hoppukastali, trampólín og önnur leiktæki fyrir börnin og þá er aldrei að vita nema að sælgæti rigni af himnum ofan yfir afmælisgesti.
Allir vinir Hólavatns, nær og fjær, eru hjartanlega velkomnir og ef eitthvað má marka veðurspá þá verður enginn svikinn af því að koma njóta dagsins á Hólavatni.