Mánudagurinn var viðburðarríkur og skemmtilegur hjá okkur hérna í hlíðinni þrátt fyrir rok og rigningu. Stelpurnar fengu hálftíma útsof vegna náttfatapartýsins kvöldið áður sem fæstar þeirra nýttu sér, margir morgunhanar í flokknum okkar. Dagskráin var hefðbundin með brennóleikjum og íþróttakeppninni rúsínuspýtingum. Í hádegismat fengu stelpurnar fiskrét, kryddbrauð og brúna köku með hvítu kremi í kaffinu og pulsupasta í kvöldmat… og paprika sem sérstakur paprikusöngur fylgdi með! Í útiverunni eftir hádegismatinn fóru stelpurnar í skógargöngu og skoðuðu m.a. rjóðrin sem er verið að útbúa hjá okkur í Vindáshlíð og óðu upp með læknum. Kvöldvakan var á sínum stað um kvöldið og hugleiðingin fyrir svefninn fjallaði um samversku konuna við brunninn og hvernig allir eru jafnir fyrir Guði. 🙂