Við vöknuðum í stilltu og fallegu veðri eftir vætusama roknótt. Starfsfólk var allt klætt sérlega litskrúðugum fötum og hafragrauturinn var appelsínugulur. Eftir fánahyllingu voru stúlkurnar sérlega góðar og áhugasamar í Biblíulestrinum, en þar ræddum við um Guð og náunga okkar, sköpunina og það að hver og ein okkar er alveg einstök sköpun Guðs. Eftir ærsl í íþróttahúsinu var matarlystin góð eins og fyrri daginn. Kjötbollur og blá-græn kartöflumús rann ljúflega niður ásamt grænmetinu. Á meðan við fórum síðan í göngu, undirbjuggu foringjarnir Ævintýraland innanhúss og það var mikil lífsreynsla. Ég segi ekki frekar frá því, en stúlkurnar gera það eflaust við heimkomuna. Ein stúlkan átti afmæli og var því bleik afmælisterta með grænu kremi og gulum stöfum, og sungið í kaffinu. Mikið var buslað í heita pottinum og skemmtiatriði kvöldsins æfð. Það gleymdist að setja lit í grjónagrautinn, en þó voru honum gerð góð skil ásamt smurbrauðinu.
Ég get heiðarlega sagt að stúlkurnar í þessum flokki eru alveg einstakar, bæði hvað gleði og jákvæðni varðar.
Með þakklætiskveðju héðan úr Ölveri,
Ása Björk Ólafsdóttir, forstöðukona.