Sæl öll sömul.
Í gær lauk öðrum degi flokksins okkar hérna í Vindáshlíð og allt gengur að óskum. Nokkrar stelpur fá kannski dálitla heimþrá rétt fyrir svefninn á nýjum stað en það gengur yfirleitt mjög fljótt yfir og gleymist í gleðinni daginn eftir. Íþróttirnar og brennókeppnin héldu áfram og þennan daginn var stígvélakast úti í rigningunni þar sem keppt er um hver getur sparkað stígvéli af fætinum lengsta vegalengd.
Í hádeginu fengu þær sænskar kjötbollur með kartöflumús. Eftir hádegi var farið í langan ratleik í skóginum þar sem keppni stóð á milli herbergja og þurfti meðal annars að giska á aldur starfsfólksins með frekar athyglisverðum niðustöðum. 🙂 Einnig var tekin frumleg mynd af hverju herbergi fyrir sig meðan þær voru úti í ratleiknum og er hægt að skoða þær myndir á myndasíðunni okkar.
Í kaffinu fengu þær köku og bananabrauð og í kvöldmat var súpa og pizzubrauð. Kvöldvaka og hugleiðing voru á sínum stað og fóru stelpurnar sáttar að sofa.