Stúlkurnar áttatíu í 2. flokki komu hressar og kátar upp í vindáshlíð rétt fyrir hádegi í gær. Þær byrjuðu að sjálfsögðu á því að fá úthlutað sínu herbergi, kynnast nýjum herbergisfélögum og bænakonunni sinni. Í hádegismatinn var ljúffengur plokkfiskur sem fékk hið frumlega heiti gratineraður töfrafiskréttur frá Sikileyjum.

Eftir hádegi nýttum við góða veðrið og sóskinið og allur hópurinn fór í gönguferð upp að Pokafossi. Það heyrðu þær um sögu fossins og héldu síðan upp með ánni að Brúarslæðu þar sem þær fengu að vaða og busla og skemmtu sér konunglega. Þegar komið var aftur úr gönguferðinni uppí Vindáshlíð var meira að segja kaffitíminn undir berum himni. Eftir kaffi hófu síðan íþróttaforingjarnir sína starfsemi með brennóleikjum og húshlaupi á tíma.

Í kvöldmat fengu stelpurnar grjónagraut og lifrarpylsu og á hugleiðingunni fyrir svefninn heyrðu þær söguna um systurnar Mörtu og Maríu og samskipti þeirra við Jesú. Kvöldvaka með öllu tilheyrandi var eftir kvöldmat þar sem 2 herbergi sáu um skemmtiatriði.Í lok dags fengu þær að bursta tennurnar úti í læknum áður en þær áttu kósý kvöldstund með nýju bænakonunni inni á herbergi.

Flokkurinn er hópur af glæsilegum og skemmtilegum stelpum sem eiga eftir að hafa það gott með okkur þessa vikuna. 🙂