Í dag var lokahöndin lögð á hin ýmsu verkefni sem sýnd verða á morgun, veisludag. Myndlistarhópur kláraði mósaíkverk sitt með því að setja fúgur í kringum flísabrotin. Tónlistarhópur æfði sitt frumsamda lag og málaði hljóðfæri. Tjáningarhópur fínpússaði leikverkið sitt.
Við snæddum lasagna í hádegismat með salati.
Brennókeppni milli herbergja var háð eftir samverustund. Hún var æsispennandi og sýndi það og sannaði að stærðin er ekki allt.
Í frjálsa tímanum fór tjáningarhópur að búa til búninga. Boðið var upp á að mála tautöskur, búa til barmhnappa og fara í pottinn. Einnig var lúpínusíróp sett á krukkur. Og það brann ekkert við í þetta skiptið. Þær sem tóku þátt í sírópsgerðinni taka afraksturinn með sér heim.
Eftir kvöldmat, skyr og heimabakað brauð, var haldið á foringjakvöldvöku. Þar áttu starfsstúlkur leiksigur í hinum ýmsu gervum. Í þessum skrifuðu orðum er að hefjast hugleiðing á bæn og svo höldum við í háttinn og söfnum orku fyrir lokadaginn okkar saman. Ráðgert er að leggja af stað héðan úr Ölveri klukkan 20:00 á morgun og koma á Holtaveg um klukkutíma síðar, kl. 21:00.
Bestu kveðjur úr listaflokki.
Gal. 6:9