Á þessum fyrsta degi í öðrum flokki í Kaldárseli ríkir góð stemning. Drengirnir mættu hingað hressir og kátir í morgun. Allir tilbúnir til þess að eiga skemmtilega viku. „Hvar er þessi Kaldá eiginlega?“ Spurði einn drengur foringja eftir stutta veru hér. Foringinn sagði bara að hún væri á leiðinni. Eftir það hefur iðulega verið spurt hvort Kaldá sé að koma. Hér í Kaldárseli er það skrítna ástand að enga Kaldá er að finna vegna þeirra þurka sem ríkt hafa á síðastliðnum vikum. Þegar drengirnir fengu svo þá útskýringu að það væri vegna þess að það hefði ekkert rignt hófust miklar óskir þar sem sólin var vinsamlegast beðin um að draga sig í hlé í þeirri von að rigningin kæmi, með Kaldána með sér.
Drengirnir hafa, þrátt fyrir vatnsleysið, allir skemmt sér vel og er allt gott að frétta af okkur. Við fórum í hellaferð fyrri part dags og nú seinni partinn hafa þeir unnið hörðum höndum úti í hrauni að byggingu virkis. Dagurinn endaði svo með kvöldvöku undir berum himni og við eld. Ró er komin að mestu í skálunum þar sem þeir hlusta á sögur foringja sinna. Það er gaman að hafa fengið að kynnast þessum drengjum og hlökkum við starfsfólkið til að eyða vikunni með þeim.