Í vikunni voru síðustu fundir vetrar í deildarstarfinu á Akureyri en alls voru 26 samverur í vetur og var meðaltalsmæting í yngri deild um 24 börn, bæði hjá strákum og stelpum. Veitt voru mætingarverðlaun þeim sem höfðu mætt best í vetur og vakti athygli að 6 strákar fengu viðurkenningu fyrir að hafa mætt á alla fundi á vormisseri. Fundarefnið þessa vikuna var Pálínuboð en þá koma allir með eitthvað lítilræði á kaffiborðið og svo njóta allir veitinganna saman. Auðvelt reyndist að tengja samveruna frásögn úr Postulasögunni þar sem segir frá því þegar Páll postuli og Tímoteus vitna fyrir nokkrum konum í borginni Filippí og ein konan, Lýdía að nafni, tekur við Jesú og býður þeim félögum svo að vera gestir á heimili sínu. Það er dásamlegt til þess að hugsa að enn í dag fáum við að segja góðu fréttirnar um Jesú og enn í dag tekur fólk trú á hann og gerir hann að leiðtoga lífs síns. Betra veganesti er ekki hægt að hugsa sér inní sumarið en einmitt það að Jesús elskar okkur hvert og eitt og vill fylgja okkur hver fótmál. Megi góður Guð gefa þér gleðilegt sumar.