Í dag, laugardag, lauk tveggja daga Kompásnámskeiði á Akureyri sem haldið var undir merkjum Æskulýðsvettvangsins og fór fram í félagsheimili KFUM og KFUK í Sunnuhlíð. Þátttakendur á námskeiðinu voru tólf og meðal þeirra var ungt fólk úr starfi UMFÍ, KFUM og KFUK og æskulýðsstarfi Glerárkirkju auk annarra þátttakenda.
KFUM og KFUK á Íslandi, í samstarfi við Ungmennafélagi Íslands og Bandalag íslenskra skáta, undir merki Æskulýðsvettvangsins, hefur tekið að sér að halda námskeið innan æskulýðsgeirans um notkun handbókarinnar og er þetta annað námskeiðið sem haldið er en fyrsta námskeiðið var haldið í Reykjavík í janúar á þessu ári.
Efni bókarinnar, aðferðarfræði og boðskapur, er í góðu samræmi við markmið KFUM og KFUK um að stuðla að þroska hvers einstaklings til líkama, sálar og anda. Hún hefur að geyma skapandi og skemmtileg verkefni sem taka á grundvallaratriðum mannlegs samfélags, mannlegri reisn, jafnrétti og frið.
Leiðbeinendur á námskeiðinu voru þau Pétur Björgvin Þorsteinsson, djákni og Evrópufræðingur, Guðrún Snorradóttir, kennari og landsfulltrúi UMFÍ og Jóhann Þorsteinsson, kennari og svæðisfulltrúi KFUM og KFUK á Norðurlandi.