Sveinbjörg Heiðrún Arnmundsdóttir heiðursfélagi KFUM og KFUK á Íslandi lést 16. febrúar 83 ára að aldri. Sveinbjörg kynntist starfi félagsins á Akranesi og var alla tíð einstaklega áhugasöm og virk í félaginu og gegndi mörgum trúnaðarstörfum fyrir KFUM og KFUK. Sumarbúðirnar í Ölveri áttu sérstakan sess í lífi hennar. Hún var í stjórn Ölvers í mörg ár, var starfsmaður í fjölda ára og gekk í öll störf sem vinna þurfti. Hún var sjálfboðaliði í æskulýðsstarfinu á Akranesi og eftir að hún fluttist til Reykjavíkur tók hún þátt í starfi KFUK í Árbænum og síðar í Seljakirkju. Hún sat í stjórn KFUK í Reykjavík í nokkur ár og var frumkvöðull að ýmsum breytingum sem voru til framfara fyrir félagið. Hún var einstaklega trúföst og tók þátt í fundum og samkomum eins lengi og heilsa hennar leyfði. Við færum Guði lof fyrir líf og starf Sveinbjargar og biðjum góðan Guð að blessa minningu hennar.